Skip to main content

Þriðjudaginn 20. september hefst hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins á haustmisseri með fyrirlestri Susanne Arthur, „Skrifarinn byrjar bókina, en lesandinn lýkur henni: Njáluhandrit og lesendur þeirra“, en fyrirlestraröð haustsins hefur yfirskriftina Nýlegar doktorsrannsóknir um söguleg efni. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en fyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Um það bil sextíu handrit og handritabrot Njálu frá fjórtándu til nítjándu aldar eru varðveitt í handritasöfnum á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Bretlandi.
Susanne Arthur lauk doktorsgráðu (Ph.D.) í norrænum fræðum og miðaldafræði frá háskólanum í Madison, Wisconsin (USA), í maí 2015. Doktorsverkefni hennar kallast, „Writing, Reading, and Utilizing Njáls saga: The Codicology of Iceland’s Most Famous Saga.“ Ritgerðin er kódikólógísk rannsókn á handritum og brotum sem innihalda Njálu. Ritgerðin var tengd alþjóðlega rannsóknarverkefninu „Breytileiki Njáls sögu,” sem RANNÍS styrkti. Ennfremur rannsakaði Susanne einkenni óháð textanum („paratextual features“), svo sem spássíugreinar, undirstrikuð orðtök og annað sem gæti borið eigendunum og lesendunum vitni, til að draga upp mynd af þeim og viðhorfum þeirra til Njálu.
Í fyrirlestrinum sýnir Susanne hvernig nota má handritaeinkenni (eins og stærð, umbrot og þéttleika textans) til að rannsaka hvaða hlutverk handritunum var ætlað, t.d. má greina á milli fræðilegra uppskrifta („scholarly copies”), skreyttra glæsihandrita og einfaldra, þéttari uppskrifta til persónulegra nota. Nokkur Njáluhandrit eru notuð sem dæmisögur („ case studies”) til að útskýra hvernig hægt er að nota kódíkólogísk gögn og einnig spássíugreinar, merki eiganda og texta sem bundnir eru saman í handrit til að endurgera sögu og félagslegan bakgrunn handritanna.
Erindið verður flutt á íslensku.