Þriðjudaginn 21. mars flytjur Vilhelm Vilhelmsson erindið „Hrói höttur íslands? Ísleifur seki Jóhannesson og glæpaaldan í Langadal á öndverðri 19. öld.” Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.
Ísleifur Jóhannesson frá Breiðavaði í Langadal, sem í samtíma sínum bar viðurnefnið „seki“, var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi á fyrstu áratugum 19. aldar. Jafnvel andlát hans varð tilefni reyfarakennda flökkusagna, en hann endaði ævi sína í rasphúsinu í Kaupmannahöfn þar sem hann fyrirfór sér árið 1829 brennimerktur og marghýddur fyrir þjófnaði og önnur afbrot. Honum var lýst sem glæsi- og þróttmenni sem sneri á ráðamenn og hæddist að þeim. Seinni tíma menn hafa jafnvel líkt honum við Hróa hött. En hver var þessi Ísleifur og um hvað var hann sekur? Í erindinu verður fjallað um Ísleif og afbrot hans og velt vöngum yfir því hvað fólst í því að vera á jaðri íslensks samfélags á þeim tíma sem hann var uppi. Jafnframt verður fjallað um hvernig ímynd jaðarsettra einstaklinga tekur breytingum þegar frá líður og þeir öðlast sess í söguvitund landsmanna sem táknmynd um samfélagsgerð fyrri tíma.
Vilhelm Vilhelmsson (f. 1980) er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann er sjálfstætt starfandi fræðimaður, stundakennari við Háskóla Íslands og annar af tveimur ritstjórum Sögu, tímarits Sögufélags.