Skip to main content

Fyrsti hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins árið 2017 fer fram þriðjudaginn 24. janúar. Þá flytur Íris Ellenberger erindi sem hún kallar „Fæðing hinnar íslensku lesbíu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Þegar rætt er um hinsegin fólk á Íslandi ber gjarna á góma hversu fljótt Ísland þróaðist úr fordómafullu og kúgandi samfélagi í þjóðfélag sem fagnar fjölbreytileika. En þegar litið er til sögunnar kemur í ljós að ein meginorsökin fyrir þessum skyndilega viðsnúningi er sú að samkynhneigð kom mun síðar inn í ríkjandi orðræðu hérlendis en í öðrum vestrænum löndum og mótun samkynhneigðrar sjálfsveru því talsvert seinna á ferðinni hér en í nágrannalöndunum.
Þetta á sér ýmsar sögulegar orsakir sem raktar verða í erindinu. Meginviðfangsefni þess er þó að varpa ljósi á hvernig lesbíur urðu til sem jaðarsettur þjóðfélagshópur á áttunda og níunda áratug 20. aldar. Því verður fjallað um vitneskjuna um samkynhneigð kvenna á Íslandi á 20. öld og með sérstakri áherslu á umfjöllun um samkynhneigð í opinberri orðræðu á Íslandi. Með því að leggja áherslu á orðræðuna er hægt að leiða í ljós hvernig lesbísk sjálfsvera mótaðist í íslensku samhengi og jafnframt hvenær samkynhneigð, í nútímaskilningi þessa hugtaks, varð raunhæfur valkostur fyrir íslenskar konur. Með öðrum orðum hvenær lesbíur tóku sér stöðu á jaðri íslensks samfélags.
Íris Ellenberger er nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi frá sama skóla árið 2013 og hefur síðan starfað við rannsóknir annars vegar á sögu hinsegin fólks á Íslandi og hins vegar á sögu fólksflutninga til Íslands. Hún hefur einnig stundað margvíslegt félagsstarf á vettvangi hinsegin fólks og er m.a. virkur meðlimur í Samtökunum ´78.