Saga tilfinninga er funheitt rannsóknarsvið í sagnfræði og það er jafnvel farið að tala um „the Emotional Turn“ sambærilegt við „the Linguistic Turn“ og fleiri slíkar vendingar síðustu aldar í hugvísindum. Innan rannsóknarsviðsins eru átök og togstreita meðal fræðimanna eins og tíðkast í fræðaheiminum og verða að kallast afar tempruð og kurteis miðað við ýmislegt sem t.d. íslensk sagnfræði hefur kynnst. Sjálf átökin og birtingarmynd þeirra milli kenningargrunna, viðhorfa og sjónarhorna geta samt varpað ljósi á hvað raunverulega er verið að þrasa um.
Í fyrirlestrinum verður saga sögu tilfinninganna rakin í grófum dráttum og bornar saman hugtakaskilgreiningar og áherslur tveggja stórvelda í þessari sögu, þeirra William Reddy og Barböru Rosenwein. Þau hafa bæði þróað kenningar sínar á löngum tíma og síðan gefið út bækur sem eru afrakstur þeirrar þróunar, Reddy árið 2001 og Rosenwein árið 2015.
Helstu hugtök Reddy sem verða til umfjöllunar eru þessi: „Emotives“; „Emotional Navigation“; „Emotional Regime“ og loks „Emotional Refuge“. Hugarsmíðar Rosenwein eru hins vegar eftirfarandi: „Emotional comunities“ og „Emotional words“ og „Emotional Sequenses“.
Heimildaflokkar þeir sem rannsóknir þeirra tveggja byggja á eru afar ólíkir. Reddy byggir í bók sinni mikið á sögu stjórnskipunar í Frakklandi á átjándu og nítjándu öld. Rosenwein rýnir í evrópska miðaldatexta. Því ert vert að spyrja hvort val á þessum mismunandi heimildaflokkum geti varpað ljósi á mismunandi nálgun þeirra á tilfinningar í fortíðinni.
Sólveig Ólafdóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún er þátttakandi í rannsóknarverkefninu Disability before Disability (Fötlun fyrir tíma fötlunar) sem fékk öndvegisstyrk frá RANNÍS á þessu ári. Sólveig er með MA gráðu í sagnfræði frá HÍ og aðra MA gráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún var framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar á árunum 2010 til 2015.