Þriðjudaginn 29. mars heldur Anna Kristjánsdóttir hádegisfyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu sem hún kallar „Fjöldahreyfingar með skýr gildi og virðingu fyrir náttúru“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Fjallað er um fjöldahreyfingar með skýr gildi og áherslu, m.a. á náttúru landsins og að virða hana. Til grundvallar liggja skrif bókarinnar Skátafélag – mikilvægt afl í samfélagi, en þar er athygli einnig beint að öðrum félögum sem skátar áttu samskipti og samstarf við undanfarna öld.
Anna Kristjánsdóttir lauk BA-prófi í stærðfræði og sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1967 og varð cand.pæd. í stærðfræði árið 1972. Hún var ráðin lektor í stærðfræði við Kennaraháskóla Íslands árið 1980, síðar dósent í stærðfræði og frá 1991 prófessor í stærðfræðimenntun. Árið 2002 var hún kölluð til starfa í Noregi og starfaði þar næstu árin en frá árinu 2011 hefur hún verið prófessor emerita við Háskóla Íslands og Háskólann í Agder í Noregi. Anna á að baki ýmis störf og skrif alþjóðlega á fræðasviðum og í félagsmálum.