Þriðjudaginn 1. nóvember flytur Erla Dóris Halldórsdóttir doktor í sagnfræði erindið „Karlmenn í fæðingarhjálp.“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Í dag starfar enginn karlmaður sem ljósmóðir á Íslandi og svo hefur ekki verið frá því í byrjun 20. aldar. Karlmenn tóku þó á móti börnum og sá fyrsti sem lauk ljósmæðraprófi gerði það árið 1776. Það var bóndi í Suður-Þingeyjarsýslu. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hóp af körlum sem sinntu ljósmæðrastörfum á Íslandi á 18. og 19. öld. Saga þessara karla er við það að gleymast.
Erla Dóris Halldórsdóttir varði doktorsritgerð sína, Fæðingarhjálp á Íslandi 1760–1880, við Háskóla Íslands í lok október á þessu ári en hún lauk bæði BA–prófi og MA–prófi í sagnfræði við sama skóla. Síðustu ár hefur hún starfað, með hléum, sem sérfræðingur hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Hún starfar nú sem sjálfstætt starfandi sagnfræðingur.
Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.