Skip to main content

Þriðjudaginn, 18. október, flytur Katrín Axelsdóttir erindið Orðasaga á vegum Sagnfræðingafélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en fyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Katrín Axelsdóttir er höfundur bókarinnar Sögur af orðum (2014). Bókin er doktorsritgerð hennar og fjallar um beygingarsögu nokkurra orða og orðahópa, einkum fornafna, sem eiga það sameiginlegt að hafa tekið miklum breytingum frá elsta skeiði í íslensku – máli sem er frægt fyrir íhaldssemi, ekki síst hvað varðar beygingu orða.
Á grundvelli allmikils efniviðar er reynt að rekja beygingarsöguna og skýra. Athygli er jafnframt beint að því sem er líkt (og um leið því sem er ólíkt) í beygingarsögu orðanna. Þar er um að ræða atriði eins og hugsanleg erlend áhrif, mállýskumun, hvenær breytingarnar verða, þann tíma sem þær taka og þá stefnu sem þær taka, þ.e. hvort þær leiða til einhvers konar einföldunar eða ekki.
Í erindinu verður sagt frá tilurð bókarinnar og byggingu, markmiðum, verklagi, heimildum, sjónarhornum, ýmsum niðurstöðum og því gagni sem má hafa af þeim.