Þriðjudaginn, 4. október, flytur Skúli S. Ólafsson erindið „Jartein og sakramenti: Nýir tímar, ný bjargráð“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en fyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Í fyrirlestrinum fjallar Skúli um altarissakramentið sem öðlaðist aukið vægi í stjórnsýslu, menningu og trúarlífi á Íslandi og víðar þar sem lútherskur siður ríkti í kjölfar siðaskiptanna. Þeirri spurningu verður varpað fram hvort altarisgangan hafi öðlast þann sess sem jartein höfðu á miðöldum, sem haldráð í baráttu daganna og tenging við æðri máttarvöld.
Skúli S. Ólafsson er fæddur í Reykjavík 1968. Hann lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1996. Hann hefur stundað framhaldsnám við Kaupmannhafnarháskóla og Gautaborgarháskóla og birt nokkrar fræðigreinar um íslensku kirkjuna á lærdómsöld. Sumarið 2014 varði hann doktorsritgerð sína við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Heiti ritsins er Altarisganga á Íslandi 1570 til 1720. Fyrirkomulag og áhrif. Skúli er sóknarprestur við Neskirkju.