Skip to main content

Þriðjudaginn 6. febrúar flytur Vilhelm Vilhelmsson erindið „Brothætt frá upphafi. Byggðarsaga Borðeyrar við Hrútafjörð“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er annar fyrirlestur vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Í útdrætti erindisins segir: Borðeyri við Hrútafjörð er líklega minnsti þéttbýliskjarni landsins. Þar búa um tíu manns. En á síðari hluta 19. aldar var bærinn miðstöð verslunar í héraðinu. Bændur komu hundruðum saman langa vegu á kauptíð og umsvifamiklir og stórhuga kaupmenn byggðu þar upp viðskiptaveldi. Þar var blómlegt menningarlíf og miðstöð fólksflutninga og millilandaverslunar. Með komu landssímans í byrjun 20. aldar varð símstöðin á Borðeyri mikilvægur tengiliður á milli landsfjórðunga. Bærinn ber þessara umsvifa enn merki. Þrátt fyrir það varð Borðeyri aldrei að fjölmennum kaupstað með fjölbreyttri starfsemi og mikilvægi hans fór hratt minnkandi þegar leið á 20. öld. Bærinn er nú ekki svipur hjá sjón og þar hefur ekki verið rekin verslun í meira en áratug. Í þessu erindi verður byggðarsaga staðarins rakin og velt vöngum yfir því hvers vegna byggð á Borðeyri hefur reynst jafn brothætt og raun ber vitni.
Vilhelm Vilhelmsson (f. 1980) er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann er annar af tveimur ritstjórum Sögu, tímarits Sögufélags, og hefur verið sjálfstætt starfandi fræðimaður undanfarin ár.