Skip to main content

Þriðjudaginn 7. febrúar flytur Markús Þ. Þórhallsson erindið „„Hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara“. Trúfrelsi og fyrsta borgaralega hjónavígslan á Íslandi“ á vegum Sagnfræðingafélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra sem skipulagðir eru í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Þau óvanalegu tíðindi að sýslumaður hefði gefið saman hjón skömmu eftir tilurð „frelsisskrár úr föðurhendi“; íslensku stjórnarskrárinnar 1874, vöktu nokkra furðu. Hjónavígslur höfðu eingöngu verið í verkahring kirkjunnar þjóna fram að því og undrun manna yfir þessu vinnulagi því mikil. Ekki að ósekju sennilega. Þetta mun vera fyrsta borgaralega hjónavígsla Íslandssögunnar og hjónin voru sannarlega á jaðri íslensks samfélags, Mormónapar búsett í Vestmannaeyjum. Trúboðar Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu höfðu enda mætt mikilli mótstöðu af hálfu geistlegra og veraldlegra yfirvalda sem sögðu þá boða villutrú sem ógnaði grundvelli kristinnar kirkju. Saga þeirra hjóna, Magnúsar Kristjánssonar og Þuríðar Sigurðardóttur, verður rakin í þessu erindi og m.a. sett í samhengi við hugmyndir nítjándu aldar manna um trúfrelsi.
Markús Þ. Þórhallsson er meistaranemi í sagnfræði og er að ljúka diplómanámi í fjölmiðla- og boðskiptafræði. Hann stjórnar morgunútvarpi á Útvarpi Sögu meðfram vinnu við meistararitgerð.