Skip to main content

Þriðjudaginn 22. september flytja Halldóra Kristinsdóttir og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Konur innan sviga – týndu konurnar í handritasafni Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns“. Að venju fer fyrirlesturinn fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.
Segja má að heimur handritanna sé nokkuð karllægur. Lengi vel voru það aðallega karlar sem sáu um að flokka og skrá handrit og sömuleiðis hafa karlmenn verið í miklum meirihluta gesta á handritasafni Landsbókasafns. Í nafnaskrám prentaðra handritaskráa eru konur um 12% og mun færri einkaskjalasöfn eru kennd konum en körlum. En ef til vill gefa þessar upplýsingar ranga mynd af stöðu kvenna innan safnsins. Þegar rýnt er betur í skráninguna kemur í ljós að kvenna er oft ekki getið með nafni þó að þær komi við sögu handrita og einkaskjöl kvenna eru oftar en ekki geymd meðal skjala eiginmanna þeirra án þess að söfnin séu kennd við þær. Í erindinu verður rýnt í handritaskráningu og nokkrar týndar konur í handritasafni dregnar fram.
Sigríður Hjördís Jörundsdóttir lauk MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2004 og Halldóra Kristinsdóttir lauk MA-gráðu í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Þær starfa báðar sem sérfræðingar á handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Í október kemur út hjá útgáfunni Uglu bók þeirra Utangarðs. Ferðalag til fortíðar, sem fjallar um utangarðsfólk í sveitasamfélagi 19. aldar.