Skip to main content

Þriðjudaginn 24. febrúar flytur Sveinn Máni Jóhannesson fyrirlestur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins á vegum Sagnfræðingafélagsins Íslands. Fyrirlesturinn ber titilinn „Ríki og þekking í Bandaríkjunum á nítjándu öld“ og hefst kl. 12:05.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um samspil þekkingar og ríkisvalds í Bandaríkjunum á fyrri hluta nítjándu aldar. Markmiðið er að að varpa nýju ljósi á myndun bandaríska ríkisins. Styrkur nútímaríkja er nátengdur getu þeirra til að afla sér þekkingar og hagnýta hana. Sérfræðiþekking var því lykilatriði við ríkismótun í kjölfar Bandarísku byltingarinnar í lok átjándu aldar. Bandaríkin – sem urðu fyrsta landnemaríkið í Nýja heiminum – þurftu að afla sér þekkingar á því náttúrulega og félagslega umhverfi sem þau gerðu tilkall til að stjórna. Til þess að verða ráðandi afl í Norður-Ameríku leitaðist alríkisstjórnin við að fanga og hagnýta óþekkt landsvæði, náttúruauðlindir og mannafla. Þessi sameiginlegu markmið opinberra stofnanna, kapítalista, þrælahaldara og bænda útheimtu víðtæka þekkingu á vísindum og tækni. Fyrir tilkomu rannsóknaháskóla og einkarekinna rannsóknastofnanna féll það einkum í hlut alríkisins að mæta þeirri þörf. Fræðimenn hafa hingað til gefið samtvinnun þekkingar og ríkisvalds í Bandaríkjunum lítinn gaum. Hún fellur ekki vel að hefðbundnum (weberískum) greiningarömmum og söguskýringum þar sem lögð er áhersla á sérstöðuhugmyndir eða þjóðarsögu. En um miðja nítjándu öld var sérfræðiþekking orðin að lykilatriði í stefnu alríkisstjórnarinnar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hversu þekkingarframleiðsla hafði víðtæk áhrif á mótun alríkisstofnanna, lagakerfisins, hugmyndafræði og innviða landsins.
Sveinn Máni Jóhannesson er doktorsnemi í sagnfræði við Cambridge-háskóla í Bretlandi.