Skip to main content

Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélags Íslands, þriðjudaginn 6. mars 2007.
Þjóðminjasafni Íslands við Suðurgötu, kl. 12:05-12:55.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Þjóðveldisöldin kvikmynduð – Ágúst Guðmundsson
Útdráttur höfundar:
Þegar kvikmynda á eitthvað sem gerist á fyrri tímum fer hópur fólks í rannsóknarvinnu til að finna út eitt og annað um viðkomandi tíma. Þegar kemur að því tímabili sem Íslendingasögurnar gerast á, þjóðveldisöldinni, er þessi rannsóknarvinna talin einkar nauðsynleg, vegna þess hve lítið er í rauninni um þessa tíma vitað.
En einmitt þess vegna er afar erfitt að hafa allt sagnfræðilega “rétt” í kvikmynd sem fjallar um þjóðveldisöldina. Það má forðast augljósar tímaskekkjur, það má beita ýmsum aðferðum við að nálgast tímabilið, en eftir stendur sú staðreynd að það er í rauninni fleira sem við vitum ekki um forfeður okkar fyrir þúsund árum heldur en það sem við vitum. Stundum má jafnvel að efast um þær ályktanir sem dregnar eru af þeim fáu fornleifum sem þó hafa fundist. Segja þau föt sem fundist hafa í gröfum endilega alla sögu um klæðnað fyrir þúsund árum, svo dæmi sé tekið?
Svo vaknar líka spurningin: Er endilega heppilegt fyrir kvikmyndina sem á að taka að leita lausnanna í fornleifafræðinni?