Skip to main content

Þriðjudaginn 10. febrúar nk. heldur Gunnhildur Hrólfsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélagsins undir yfirskriftinni „Þær þráðinn spunnu. Konur í Vestmannaeyjum 1835-1980“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.
Fátt hefur verið tekið saman um konurnar í Vestmannaeyjum sem þurftu að lúta náttúruöflunum við vatnsskort og einangrun í erfiðri lífsbaráttu. Slóðin sem feta þarf til að finna heimildir um þær er ekki auðrakin. Rannsóknin hefst við ártalið 1835 en þá er fyrst farið að nefna annað en húsbændur og hjú í manntölum. Í heimildum frá þeim tíma er kvenna sjaldan getið nema þær hafi gert mönnum sínum þann óleik að deyja frá hóp af börnum, eða væru mæður „mikilmenna.“ Þegar leið á 20. öldina jukust möguleikar kvenna og hafa Eyjarnar alið listakonur eins og Júliönu Sveinsdóttur og Högnu Sigurðardóttur. Í eldgosinu 1973 flúðu allir eyjabúar og og nú rúmum 40 árum síðar eru konur farnar að gera upp tilfinningar sínar gagnvart þessum afdrifaríka atburði.
Gunnhildur Hrólfsdóttir er rithöfundur og sagnfræðingur. Hún hefur bæði skrifað fyrir börn og fullorðna, einnig leikrit fyrir útvarp og unnið og flutt útvarpsþætti, auk greina í blöð og tímarit.