Skip to main content

Þriðjudaginn 17. nóvember flytur Guðný Hallgrímsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Voru konur fátíðar allt fram á 20. öld?“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Það er þekkt staðreynd að íslenskar konur hafa nánast verið „ósýnilegar“ í menningarsögu fyrri alda. Svo virðist sem þær hafi beinlínis „týnst“ af hinum margumtöluðu spjöldum sögunnar því saga okkar greinir aðeins frá örfáum konum eða réttara sagt einstaka mönnum sem áttu konur. Ýmsir hafa bent á heimildaskort sem hugsanlega skýringu og aðrir að konur hafi hreinlega ekki tekið þátt í samfélaginu á sama hátt og karlar. Raunin er hins vegar sú að mikinn fjölda handrita þar sem konur koma við sögu er að finna á handritasöfnum hérlendis en sumpart eru þau hulin sjónum okkar. Fræðaheimurinn hefur lengst af sinnt sögu þeirra lítið og handritafræðingar hafa litið framhjá vitnisburði kvenna við skráningu handrita. Á Þjóðskjalasafni Íslands er að finna eitt stærsta safn frumheimilda um hlutverk og stöðu kvenna fyrr á öldum. Safnkosturinn inniheldur gríðarlegt magn heimilda um konur af öllum stigum samfélagsins, heimilda sem gefa fræðimönnum framtíðarinnar færi á að horfa á þátt kvenna í þjóðarsögunni á allt annan hátt en áður. Rýnt verður í örlítið brot af þessum merkilega safnkosti og skoðað hvað þar er að finna um konur fortíðar.
Guðný Hallgrímsdóttir stundar nú doktorsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands þar sem hún rannsakar sjálfsmynd íslenskra alþýðukvenna á 18. og 19. öld. Árið 2013 kom út eftir hana bókin Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu, en fyrir hana hlaut Guðný Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka.