Skip to main content

Þriðjudaginn 8. september hefjast hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélags Íslands að nýju eftir sumarfrí. Þema hádegisfyrirlestranna að þessu sinni er Heimildir um konur/Konur í heimildum, en eins og kunnugt er er í ár haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Sem fyrr fara hádegisfyrirlestrarnir fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefjast kl. 12:05.
Það er Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sem ríður á vaðið þann 8. september með fyrirlestur sem hún kallar „„Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð í útliti“. Skjalasafn ungmennaeftirlitsins og ímynd ástandsstúlkunnar“.
Árið 1961 voru gögn Jóhönnu Knudsen, fyrstu lögreglukonu Íslands, afhent Þjóðskjalasafni Íslands gegn því skilyrði að gögnin yrðu innsigluð næstu 50 árin. Þegar innsiglin voru rofin kom í ljós að þarna var um að ræða skjöl Ungmennaeftirlits lögreglunnar sem Jóhanna veiti forstöðu 1941 til 1945. Þessi skjöl varpa nýju ljósi á hið svokallaða ástand, vel þekktan kafla í íslenskri samtímasögu. Gögnin má skoða frá ýmsum hliðum. Fyrir það fyrsta má segja að ýmis kurl séu komin til grafar hvað varðar aðgerðir lögreglunnar til að sporna við og stjórna samskiptum íslenskra kvenna við erlent setulið. Það má ennfremur skoða gögnin ofan í kjölinn og huga að því hver var hvatinn og hugmyndafræðin bak við aðgerðirnar og hvernig framkvæmdavaldið rammaði þær inn í ríkjandi orðræðu og gaf þeim menningarlegt vægi. Þannig má greina og afhjúpa valdastrúktúra sem byggjast á kyngervi, stétt og menningarlegu forræði. Í fyrirlestrinum verður kafað ofan í þessi skjöl og reynt að gera grein fyrir þeim þráðum sem sköpuðu hugmyndina um ástandsstúlkuna, hvaða eiginleikar henni voru eignaðir og hvernig þessi ímynd var mátuð við reykvískar stúlkur.
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir útskrifaðist með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2011. Hafdís skrifar nú meistararitgerð sína í kvenna- og kynjasögu við Háskólann í Vín, en ritgerðin fjallar um aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn samböndum kvenna og erlendra setuliðsmanna í Salzburg og Reykjavík á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.