Skip to main content
Stjórn Sagnfræðingafélagsins ákvað á fundi í vikunni hver yfirskrift næstu hádegisfundaraðar verður. Hin óformlega könnun hér á síðunni var stjórninni til aðstoðar  við ákvörðunina en þar urðu þrjú efni hlutskörpust, kreppa, endurreisn og dómur sögunnar. Því var ákveðið að hafa veturinn tvískiptan sem fyrr, haustmisseri helgað kreppunni (og þá endurreisninni um leið, enda tvær hliðar á sama teningi), en á vormisseri verður fjallað um dóm sögunnar.

Félagið kallar sem fyrr eftir fyrirlestrum. Verðandi frummælendur eru beðnir um að senda titil og 200 orða útdrátt á netfangið irisel@hi.is eigi síðar en 15. júní næstkomandi.

Haust 2009: Hvað er kreppa?
Hvað er eiginlega þessi kreppa sem allir eru að tala um? Á hún sér einhverjar hliðstæður í sögunni? Átti einhvers konar endurreisn sér stað í kjölfarið? Hvernig hefur endurreisn verið háttað? Hvaða áhrif hafði kreppa á matarræði, menningu, félagsstarf, klæðaburð, heimilishald o.fl.? Hvernig birtist kreppa í listum, tísku, siðum og venjum?

Leitast verður við að fá fyrirlesara til að fjalla um kreppur úr frá víðum sjónarhóli. Ekki aðeins efnahagskreppur 20. aldar heldur kreppur af ýmsum toga í gegnum gjörvalla söguna, stjórnarkreppur, trúarkreppur, sálarkreppur, hugmyndafræðikreppur, fjölmiðlakreppur, ímyndarkreppur, fræðakreppur, menningarkreppur, vistfræðikreppur, auðlindakreppur, listakreppur og annað sem fyrirlesurum dettur í hug.

Vor 2010: Hvað er dómur sögunnar?
Dómur sögunnar komst í hámæli vorið 2008 þegar Björn Bjarnason taldi sig hafa borið kennsl á hann. Nú veltum við því fyrir okkur hvers konar fyrirbæri þetta er, bæði almennt og er varðar ákveðna sögulega atburði. Hver er dómur sögunnar? Hverjir fella dóm sögunnar? Af hverju ræðst hann? Hvernig breytist hann? Hvað veldur? Er dómur sögunnar réttlátur eða ranglátur? Hverjir njóta góðs af dómi sögunnar? Hverjir vilja flagga dómi sögunnar? Í hvaða tilgangi? Er yfirleitt eitthvað til sem heita má „dómur sögunnar“?

Nú er tækifæri fyrir sagnfræðinga að setja mark sitt rækilega á umræðuna sem hefur átt sér stað í kjölfar hins margþætta hruns síðasta október. Því hvetjum við sagnfræðinga sérstaklega til að láta þetta ekki framhjá sér fara. Fræðafólk úr öðrum greinum er að sjálfsögðu einnig velkomið.