Kæru félagar,
Næstkomandi þriðjudag, þann 29. janúar, verður 8. fyrirlestur vetrarins í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands en á vormisseri er yfirskrift fyrirlestraraðarinnar Hvað er sögulegur skáldskapur?
Guðni Th. Jóhannesson nýráðinn lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands mun að þessu sinni flytja fyrirlesturinn „Hvað ef? Íslandssagan sem gæti hafa gerst.“
Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst klukkan 12:05.
Abstract:
Fólk hefur lengi velt því fyrir sér sem gæti hafa gerst í mannkynssögunni en gerðist ekki. Hvað hefði gerst ef Persar hefðu lagt Grikkland undir sig í fornöld? Hvað ef suðurríkin hefðu haft betur í bandarísku borgarstyrjöldinni? Hvað ef Hitler hefði fallið í fyrri heimsstyrjöldinni? Vissulega getur verið gaman að velta fyrir sér spurningum af þessu tagi en hafa þær eitthvert gildi í sagnfræði? Í erindinu verður komist að þeirri niðurstöðu að því megi hiklaust svara játandi. Hugleiðingar um það sem gæti hafa gerst hjálpa okkur til að skilja betur hvers vegna svo fór sem fór hverju sinni; hvað var nær óumflýjanlegt og hvað var eingöngu háð tilviljunum og duttlungum örlaganna. Nefnd verða nokkur dæmi úr Íslandssögunni þessu til stuðnings, allt frá þjóðveldi norrænna manna í Vesturheimi fyrir þúsund árum til þýsks hernáms í seinna stríði og bankahruns sem aldrei varð á okkar dögum.
Fyrir hönd Sagnfræðingafélags Íslands,
Vilhelm Vilhelmsson