Skip to main content

Stjórn Sagnfræðingafélag Íslands hefur sent forsætisráðherra bréf. Tilefnið er nýútgefin skýrsla um ímynd Íslands. Skýrslan er afrakstur af starfi nefndar forsætisráðherra en nefndarformaður var Svava Grönfeldt, rektor við Háskólann í Reykjavík. Í skýrslunni kemur fram að ein af undirstöðum ímyndar Íslands eigi að vera uppruni þjóðarinnar og þá m.a. eftirfarandi þættir í sögu hennar:

Fyrstu Íslendingarnir voru fólk sem kom hingað í leit að frelsi og betri lífsskilyrðum. Þjóðin bjó lengstum við kröpp kjör en þegar hún fékk frelsi og sjálfstæði tók hún stökk frá því að vera þróunarland til þess að verða ein ríkasta þjóð í heimi á innan við öld. Íslendingar eru dugleg og stolt þjóð, mótuð af lífsbaráttu í harðbýlu landi. Mikilvægasti menningararfur Íslendinga, íslensk tunga, lifir í máli þjóðarinnar og í bókmenntum hennar.

Sagnfræðingafélagi Íslands finnst rétt að benda á að þessar fáu setningar fela m.a. í sér söguskoðun sem er á skjön við sagnfræðirannsóknir síðustu 30-35 ára. Hún sver sig fremur í ætt við þá söguskoðun sem mótuð var í sjálfstæðisbaráttunni í pólitískum tilgangi. Þeirri söguskoðun hafa fjölmargir sagnfræðingar andmælt síðustu áratugi og komið fram með sannfærandi rök sínu máli til stuðnings. Greina má goðsagnir á borð við frelsisþrá landsnámsmanna og nýja gullöld í kjölfar sjálfstæðis sem voru meðal þeirra sem skapaðar voru til að réttlæta sjálfstæðiskröfuna. Einnig má sjá að nútímahugtök og –viðmið eins og „betri lífsskilyrði“ og „þróunarland“ eru notuð yfir fortíð þar sem óvíst er að þau hafi haft nokkuð gildi.

Sannarlega er umdeilt hvort ímyndir hafi nokkuð með sannleika að gera. Hins vegar lýsir nefndin því yfir að „[á]rangursrík ímyndaruppbygging þarf að byggjast á einkennum lands og þjóðar sem eru sönn eða „ekta“ og eiga sér djúpar rætur.“ Ofangreindar staðhæfingar um sögu íslensku þjóðarinnar geta því varla samræmst skilgreiningu nefndarinnar á árangursríkri ímyndaruppbyggingu nema að því leyti að fyrrnefndar goðsagnir eiga sér sannarlega djúpar rætur.

Meðfylgjandi bréfinu er listi yfir áhugaverðar rannsóknir og umfjallanir fræðimanna annars vegar um ímyndir og hins vegar endurskoðunina á þeirri pólitísku söguskoðun sem ríkti á Íslandi fram á 8. áratug síðustu aldar. Það er von Sagnfræðingafélags Íslands að ekki verði litið fram hjá rannsóknum sagnfræðinga og annarra fræðimanna á síðustu áratugum við ímyndarsköpun Íslands á vegum hins opinbera. Jafnframt má benda á að ávallt er hægt að leita til félagsins sem veitir faglega aðstoð eftir bestu getu og er vilji meðal stjórnarmanna að halda fund með fagfólki og fulltrúum nefndarinnar um sagnfræði og ímyndarsköpun.

Lesa má bréf stjórnarinnar í heild sinni á .pdf formi hér