Davíð Ólafsson heldur fyrirlestur sinn „Konur, handritamenning og bókmenntasaga hversdagsins“ næstkomandi þriðjudag, 8. febrúar. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröðinni Hvað er kynjasaga?
Handritað efni frá síðari öldum – eftir tilkomu prentverks – hefur notið vaxandi athygli fræðimanna víða um lönd undanfarin ár og áratugi. Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós að handrituð miðlun hafi gegnt mikilvægu hlutverki í bókmenningu og miðlun á árnýöld og nýöld samhliða hinu prentaða orði. Jafnframt hefur verið bent á að þessir ólíku miðlar texta hafi verið nýttir við miðlun ólíkra textagreina og meðal ólíkra þjóðfélagshópa. Eitt af því sem þessar rannsóknir hafa beinst að er hversu miðlunarleið handrita hafi verið nýtt af konum sem jafnan voru lítt sýnilegar í heimi hins prentaða orðs. Í fyrirlestri sínum fjallar Davíð Ólafsson um aðkomu kvenna að handritamenningu síðari á Íslandi og því sem hann kallar bókmenntasögu hversdagsins.
Fyrirlesturinn fer fram í Þjóðminjasafni Íslands og hefst kl. 12:05. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.