Skip to main content

Sigrún Davíðsdóttir, blaðamaður og rithöfundur, flytur erindið Kreppan og kunningjaþjóðfélagið þriðjudaginn 3. nóvember kl. 12.05 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins sem ber yfirskriftina Hvað er kreppa?
Íslenska bankahrunið vekur ýmsar spurningu. Það má vissulega segja að einkavæðingin hafi hleypt íslenska fjármálundrinu af stað – en draumurinn um Ísland sem fjármálaveldi var vaknaður fyrr og þeir sem stýrðu bönkunum komu margir hverjir úr ríkisbönkunum. Aflandsviðskipti voru komin af stað fyrir einkavæðinguna og bankarnir byrjaðir að kaupa eignir erlendis. Bankana vantaði hins vegar djarfa umsvifamenn erlendis til að starfa fyrir. Þegar þeir birtust var ‘útrás’ bankanna ekkert að vanbúnaði.
Þó Ísland sýndi öll merki ný-einkavædds fjármálageira fljótlega eftir að einkavæðingu bankanna lauk 2002 – mikill útlánavöxtur með tilheyrandi hækkunum á fasteignum og verðbréfamarkaði – var eins og menn álitu að þetta væri stöðugt ástand sem ekki gæti annað en orðið langætt. Fáir virtust hugleiða hættuna sem felst í óþroskuðum markaði án hefða og reynslu. Lítið eftirlit og frjálsræði var álitið besta leiðin þó reynsla víða að úr heiminum sýni hið gagnstæða. Það var eins og menn tryðu á ‘séríslenskar’ aðstæður í þessum efnum.
Það er athyglisvert að íhuga hvernig stendur á því að Ísland er eina landið í yfirstandandi kreppu þar sem þrír helstu bankarnir bankarnir urðu gjaldþrota auk ýmissa smærri fjármálafyrirtækja. Líka eina landið þar sem hefur þurft að setja upp sérstakan saksóknara auk þess sem Serious Fraud Office kannar nú ýmsa þætti í starfsemi íslensku bankanna í Englandi.
Fyrir ári síðan breyttist fjármálaundrið í fjármálaviðundrið. Allt bendir til að sagan sé enn ekki sögð að fullu, að minnsta kosti boðar Rannsóknarnefnd Alþingis slæmar fréttir í væntanlegri skýrslu sinni og embætti sérstaks saksóknara virðist ekki sitja með hendur í skauti.
Hvað gerist í samfélagi þar sem samskipti og vinnubrögð markast af persónulegum tengslum þegar það fer skyndilega á flot í peningum? Fór íslenskt samfélag af leið eða var þetta leiðin: leið kunningjasamfélagsins?
Sigrún Davíðsdóttir er blaðamaður og rithöfundur, fædd 1955. Hún flutti til Kaupmannahafnar 1988 og til London árið 2000. Fyrir utan matreiðslubækur, barnabók og skáldsögu hefur Sigrún skrifað bók um handritamálið sem kom út á dönsku 1999.
Sem fyrr hefst fundurinn kl. 12.05 í Þjóðminjasafninu. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.