Fyrir skemmstu náði hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands þeim merka áfanga að fagna 10 ára afmæli. Eins og komið hefur fram í Fréttabréfi og einnig í sögu félagsins, þá hafa fyrirletrarnir verið fjölmargir og fjölbreyttir. Eitthvað af þeim fyrirlestrum sem hafa verið fluttir, hafa jafnframt verið gefnir út á prenti. Þar má nefna fyrirlestraröðin Hvað er borg? (Borgarbrot, 16 sjónarhorn á borgarsamfélagið) sem vakti mikla athygli. Þá ákvað félagið að standa fyrir útgáfu hádegisfyrirlestra sem fluttir voru veturinn 2006-2007, en efni þess vetrar var spurningin Hvað er sagnfræði? Það er mikil ánægja að tilkynnna að rit þetta er nú komið úr prentsmiðju og verður til sölu hjá Sögufélagi, bókaforlaginu Skruddu og víðar.
Í tilefni þessara tímamóta er við hæfi að líta yfir farinn veg í þessum efnum og velta jafnframt fyrir sér framtíð hádegisfyrirlestranna. Því er boðað til félagsfundar n.k. fimmtudag 29. maí klukkan 20.00 í húsakynnum Sögufélags, Fischersundi. Þar verður rætt vítt og breitt um hádegisfyrirlestrana; grunnhugmynd, tilgang, hvað má betur fara o.fl.. Jafnframt verður rýnt í nýútkomið rit. Allir sem eru áhugasamir um þetta efni eru hvattir til þess að mæta!
Frummælendur fundarins eru Sigurður Gylfi Magnússon, sem fjallar um upphaf hádegisfunda sagnfræðingafélagsins og tilgang þeirra og Hrefna Róbertsdóttir, sem rýnir nýútkomið rit, Hádegisfyrirlestrar SI veturinn 2006-2007. Hvað er Sagnfræði? Rannsóknir og miðlun.
Af gefnu tilefni upplýsist að stjórn Sagnfræðingafélagsins hefur rætt tillögur að yfirskrift hádegisfunda næsta vetrar. Stjórninni leist beist á tvær spurningar sem brenna á landsmönnum um þessar mundir, „Hvað er andóf?“ og „Hvað er að óttast?“. Spurningarnar tengjast því ótti er algeng undirrót andófs jafnframt því sem andóf vekur gjarnan upp ótta. En hvað hefur fólk óttast í aldanna rás? Kreppu? Lágt gengi krónunnar? Hrun hagkerfisins? Náttúruhamfarir? Almenningsálitið? Unglinga? Útlendinga? Yfirvöld? Hvernig hefur sá ótti birst? Hverjir hafa kynt undir óttann? Var sá ótti raunverulegur og yfirvofandi eða ýkjur einar? Hvernig var tekist á við óttann? Og hvað er andóf? Hverju hefur verið andæft á Íslandi? Af hverju var gripið til aðgerða? Hvaða aðferðum var beitt? Hver var árangurinn? Hvert var viðhorfið til andófsins? Hvaða aðferðir hafa þótt ó/ásættanlegar? Hvernig hefur það breyst?
Stjórnin hvetur alla félaga til að mæta á kvöldfundinn, ræða ótta og andóf, leggja fram aðrar tillögur að yfirskrift og ræða fundahöld Sagnfræðingafélagsins almennt.