Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra heldur málþingið Fólk í heimildum – heimildir um fólk laugardaginn 11. október næstkomandi. Þingið verður haldið í bókasafni Halldórs Bjarnasonar í húsakynnum Rannsóknaseturs HÍ á Einbúastíg 2 á Skagaströnd.
VEGNA DRÆMRAR ÞÁTTTÖKU HEFUR HÓPFERÐ Á ÞINGIÐ FRÁ REYKJAVÍK VERIÐ AFLÝST. MÁLÞINGIÐ VERÐUR ÞÓ ÁFRAM Á DAGSKRÁ MEÐ ÓBREYTTU SNIÐI OG ALLIR VELKOMNIR.
Fólk í heimildum – heimildir um fólk
Heimildir um fortíðina innihalda margvíslegar upplýsingar um fólk og fræðimenn vitja heimildanna gjarnan til þess að kynnast þessu fólki, lífi þeirra, hugsunum og tilfinningum í von um að öðlast innsýn í fortíðina. En hversu raunsanna mynd af fólki í öllum sínum margbreytileika gefa þær heimildir sem varðveist hafa? Og hvaða rétt hafa fræðimenn til þess að rannsaka og skrifa um líf einstaklinga líkt og það birtist í heimildum sem aldrei voru ætlaðar sjónum almennings eða urðu til við rannsókn yfirvalda á viðkvæmum stundum í lífi þess? Fræðimenn sem vinna með slíkar heimildir standa þannig frammi fyrir ýmsum álitamálum sem eru í senn aðferðafræðilegs, þekkingarfræðilegs og siðferðilegs eðlis. Þau varða það m.a. hvort og þá hvað hægt sé að vita um fólk fortíðarinnar, hvernig skapa megi merkingarbæra þekkingu um það og hvaða siðferðilegu takmarkanir og ábyrgð hvíli á fræðimönnum sem starfa með heimildir um líf fólks. Málþingið er hugsað sem vettvangur til að ræða þessi álitamál frá ólíkum hliðum og um leið að leggja fram tilgátur, varpa fram nýjum spurningum og verða fyrir innblæstri fyrir áframhaldandi rannsóknir um fólk fortíðarinnar.
Dagskrá
Sigurður Gylfi Magnússon
Fulltrúar fólksins! Er þá einhvers staðar að finna?
Lára Magnúsardóttir
Hver ber andlegar afleiðingar afbrota? Tilurð heimilda í sögulegu samhengi
Ólafur Arnar Sveinsson
Rannveig og Torfhildur í Kanada á 19. öld. Vangaveltur um aðferðafræðileg og
siðferðisleg vandamál við úrvinnslu sendibréfa
Vilhelm Vilhelmsson
Stílfært og sett í samhengi: Um sniðmát vitnisburða í réttarheimildum
Erla Hulda Halldórsdóttir
Fortíðin er framandi land
Kristján Mímisson
Ævisöguleg fornleifafræði og fornleifafræði hins ævisögulega
Fundarstjóri er Sigurður Gylfi Magnússon
Málþingið hefst klukkan 13:00 og stendur til klukkan 17:00. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti í hléi. Aðgangur ókeypis.
Haustferð Sagnfræðingafélags Íslands og ReykjavíkurAkademíunnar
AFLÝST