Skip to main content

Hvað er sagnfræði? spurði Sagnfræðingafélag Íslands fyrir hartnær 20 árum. Átján frummælendur leituðust við að svara spurningunni með fjölbreyttum hætti í hádegisfyrirlestrum félagsins veturinn 2006 – 2007; sagnfræðingar fluttu flest erindin en einnig svöruðu aðrir fræðimenn spurningunni, auk listamanna, fjölmiðlafólks og eins ráðherra.

Afraksturinn var gefinn út á prenti í bókinni Hvað er sagnfræði? sem er löngu uppseld en má nálgast á öllum betri bókasöfnum.

Næstum 20 árum síðar finnst okkur kominn tími til að spyrja aftur sömu spurningar: Hvað er sagnfræði? Hefur eitthvað breyst á tveimur áratugum eða eiga gömlu svörin enn við?

Við óskum eftir tillögum að erindum til flutnings á málþingi Sagnfræðingafélags Íslands í janúar. Í þeim er hægt að fást við hvað það sem höfundar telja að geti svarað, eða leitast við að svara, spurningunni um hvað sagnfræðin sé í dag. Við hvetjum sagnfræðinga og annað áhugafólk um sögu og sagnfræði til að senda inn tillögur.

Vinsamlegast sendið inn tillögur ykkar að erindum ekki seinna en 1. nóvember á netfangið sagnfraedingafelagid@gmail.com.

Til gamans birtum við heiti erindanna frá 2006 – 2007 eins og þau birtust í bókinni Hvað er sagnfræði?

Ljúgverðugleiki; Hin þrjú andlit Klíó: Átökin í sagnfræðinni; Að bera kennsl á hið óvænta. Munnlegar heimildir: Möguleikar og sannleiksgildi; Hvað er íslensk sagnfræði?; Er sagan bara sjónarmið? Spurningin um hlutlægni í sagnfræði; Er til rétt saga? Um kanón í sagnfræði og sögukennslu; Sannast sagna: Efasemdir um gildi sannleikans í sagnfræði og hvernig má eyða þeim; Hvað kemur á undan? Rannsóknir eða miðlun?; Sögukennsla. Nema hvað? Hvernig?; Þjóðveldisöldin kvikmynduð; Arfur og miðlun: Hugmyndafræði og nýjar rannsóknir; Ferð til fortíðar: Sögusýningar á Íslandi; Sagan sögð og rædd: Þáttagerð og miðlun sögulegs efnis í útvarpi; Miðlun menningararfs.