Skip to main content

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður flytur erindið „Þýðing andófs fyrir þróun réttarins“ þriðjudaginn 17. mars kl. 12:05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina Hvað er andóf?
Í lýsingu á erindinu segir:
Í fyrirlestrinum verður einkum fjallað um borgarlega óhlýðni. Hugtakið verður skilgreint og afmarkað frá aðgerðum eins og löglegum mótmælafundum annars vegar og uppreisn og byltingu hins vegar. Tekið verður dæmi af Norðurreiðinni vorið 1849 til útskýringar á borgaralegri óhlýðni í framkvæmd.
Skilgreining John Rawls í Kenningu um réttlæti á hugtakinu borgarlega óhlýðni verður lagt til grundvallar, en hún hljóðar svona: „Borgarleg óhlýðni er opinber, friðsamlegur, meðvitaður en pólitískur verknaður, andstæður lögum, og venjulega framinn til að breyta lögum eða stefnu ríkisstjórnar. Með því að hafast að með þessum tiltekna hætti er skírskotað til réttlætiskenndar meirihluta samfélagsins og því lýst yfir, að skoðun manns sé sú, að yfirveguðu máli, að ekki séu virtar reglur um félagslega samvinnu frjálsra og jafnra manna.“ Skilgreining þessi verður greind í sjö þætti og leitast við að gera grein fyrir hverjum þeirra á gagnrýnan hátt.
Að lokum verður reynt að meta hvort borgaraleg óhlýðni beri þann árangur sem iðkendur hennar stefna að.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.