Þriðjudaginn 18. mars flytur Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Skáldaðar borgir“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00. Hann er opinn öllu áhugafólki um sögu og skipulagsmál.
Borgir leika mikið hlutverk sem staðir og sögusvið í nútímabókmenntum. Gjarnan er gengið út frá því að stórborgin sé hinn ráðandi vettvangur og viðmið nútímans en sem umgjörð nútímalífs birtist borgin jafnframt iðulega sem ný „náttúra“ mannsins, raunar oft í býsna skuggalegum myndum. Í þessum fyrirlestri verður spurst fyrir um það hvernig nútímaborgin er sett fram, endursköpuð eða „búin til“ í tungumáli bókmenntanna; hvernig unnið er með táknheim borgarinnar og hvernig tekist er á við borgina sem hugarástand, sem ummótaðan eða ímyndaðan veruleika, sem kann að skipta sköpum um reynslu hvers og eins af borginni. Hliðsjón verður höfð af nokkrum skáldverkum og fræðilegri umfjöllun um borgarmenningu.
Ástráður Eysteinsson lauk BA-prófi í þýsku og ensku við Háskóla Íslands, M.A.-prófi í bókmennta- og þýðingafræði við University of Warwick, Englandi, og doktorsprófi í bókmenntafræði við University of Iowa. Hann er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir og kennslu á ýmsum sviðum bókmenntafræði og m.a. fjallað um fagurfræði borgarlífs í samhengi módernisma, menningarfræði og kenninga um nútímann.