Fundur Sagnfræðingafélags Íslands um aðgengi að heimildum á söfnum, haldinn á Þjóðskjalasafni Íslands, Laugavegi 162, miðvikudaginn 23. febrúar kl. 16:00-17:30.
Greiður aðgangur að heimildum sem varðveittar eru á söfnum er mikið hagsmunamál þeirra sem stunda sagnfræðirannsóknir – og þetta á ekki hvað síst við um skjalasöfn. Það er brýnt að samband sagnfræðinga við söfn sé byggt á grundvelli gagnkvæms skilnings og trausts. Mikilvægt er að sagnfræðingar þekki þær reglur sem í gildi eru og þau vinnubrögð sem tíðkast innan safnanna og að sama skapi getur það verið söfnunum mikilvægt að heyra álit og hugmyndir þessa notendahóps. Því er fundurinn kjörinn vettvangur til skoðanaskipta, þar sem reifaðar verða spurningar eins og:
*Hverjar eru helstu takmarkanir að heimildum á íslenskum söfnum og hverju eru þær háðar?
*Hver hefur þróunin verið í þessum efnum hér á landi og hvernig stöndum við í samanburði við nágrannalöndin?
*Er lagaumhverfið eða þjónusta safna íþyngjandi fyrir sagnfræðirannsóknir?
Frummælendur fundarins:
* Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands: „Skjalasöfn og rannsóknir frá sjónarhóli notenda.“
* Kristjana Kristinsdóttir, skjalavörður og sviðstjóri skjalavörslusviðs Þjóðskjalasafns Íslands: „Aðgengi að skjalasöfnum – hindranir og möguleikar.“
* Njörður Sigurðsson, sagnfræðingur og starfsmaður Borgarskjalasafns: „Aðgangur óheimill – undanþágu krafist.“
* Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns Íslands: „Getur rafræn skráning handrita og skjalasafna bætt aðgengi – Framtíðarsýn og dæmi.“
Fundarstjóri er Guðbrandur Benediktsson, sagnfræðingur og safnafræðingur.