23. febrúar klukkan 12:05 flytur Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fyrirlesturinn Varðveisla texta: hvað er það? í Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands. Varðveisluhugtakið verður tekið til umræðu og er fullyrt að það feli ekki eingöngu í sér vörslu eða gæslu á menningarlegum og sögulegum verðmætum, svo sem til að forðast skemmdir eða glötun. Enn mikilvægara er að þekkingu um og skilningi á þessum verðmætum sé veitt til samtímans. Dæmi um slíkt geta verið endurgerð húsa, sýningar af ýmsu tagi eða brýr og slóðar sem auðvelda göngu að torveldum sögustöðum. Í erindinu verða færð rök fyrir því að vönduð varðveisla á textum frá fyrri öldum felist jafnt í vönduðum geymslum með réttu rakastigi og nákvæmri skráningu, en ekki síst í öflugri útgáfu í almanna þágu, jafnt í viðamiklum og metnaðarfullum ritröðum sem og á handhægum bókum til afþreyingar og uppfræðslu.
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.