Skip to main content

Þriðjudaginn 28. október flytur Viggó Ásgeirsson sagnfræðingur hádegisfyrirlesturinn Óttinn við sjúkdóma: Spænska veikin og fuglaflensan. Í lýsingu á efni erindisins segir:

Í erindinu verður fjallað um spænsku veikina á árunum 1918-1919 en hún er skæðasti inflúensufaraldur sem gengið hefur yfir heiminn. Farið verður yfir það hvernig veikin barst til Íslands og til hvaða ráðstafana var gripið. Reynt verður að varpa ljósi á hvaða áhrif veikin hafði á mannlífið. Veirufræðingar og heilbrigðisyfirvöld víða um heim telja nýjan inflúensuheimsfaraldur nánast óumflýjanlegan. Óttast er að þrálátasta og líklega hættulegasta veiruafbrigðið í heiminum í dag, fuglainflúensuveiran, kunni að aðlagast mönnum og fari að smitast á milli þeirra. Þeirri spurningu er velt upp hvernig við séum undir það búin að mæta slíkum faraldri.

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.