Á morgun, þriðjudaginn 9. apríl, verður lokafyrirlestur vetrarins í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands en á vormisseri er yfirskrift fyrirlestraraðarinnar Hvað er sögulegur skáldskapur?
Að þessu sinni flytur Guðrún Harðardóttir, sérfræðingur í byggingarsögu hjá Þjóðminjasafni Íslands, erindið: „Skáldað í byggingararfinn?“
Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands og hefst klukkan 12:05
Abstract:
Íslendingar hafa verið iðnir við að reisa tilgátuhús á undanförnum árum. Í fyrirlestrinum verður gerð tilraun til kortlagningar á tilgátuteikningum og tilgátuhúsum hér á landi. Skyggnst verður inn í sumar teikninganna og vafinn sem höfundar þeirra setja fram er dreginn upp á yfirborðið til mótvægis við þá tilhneigingu tilgátuteikninga að verða frekar að sannleika í hugum fólks en annar sögulegur skáldskapur. Þá verður einnig skoðað í hvaða samhengi tilgátuteikningar eru gerðar og tilgátubyggingar reistar.
Fyrir hönd Sagnfræðingafélags Íslands,
Vilhelm Vilhelmsson