Skip to main content

Sagnfræðingafélag Íslands hefur undanfarin 15 ár haldið úti reglulegum hádegisfyrirlestrum við góðan orðstír. Upphaflega var stofnað til þessara fyrirlestra með því markmiði að efla samræður meðal sagnfræðinga um sínar rannsóknir og sitt fag og þaðan er yfirskriftin „hvað er … ?“ komin, sem myndað hefur ramma fyrir efnistök fyrirlestranna. Óhætt er að segja að fyrirlestrarnir hafi slegið í gegn og verið þörf viðbót við íslenskt fræðaumhverfi, enda hafa þeir fyrir löngu öðlast þar fastan sess. Þeirri formfestu fylgir ákveðin stöðnun og stjórn Sagnfræðingafélags Íslands er þeirrar skoðunar að undanfarið hafi dregið nokkuð úr upphaflegu markmiði hádegisfyrirlestranna og að tími sé kominn á uppstokkun og endurnýjun. Stjórnin hefur því tekið ákvörðun um að hætta með spurnarformið í yfirskrift fyrirlestranna og hefja dagskrá vormisseris 2014 undir formerkjum nýrra rannsókna í sagnfræði. Það er von okkar að slík breyting geti stuðlað að líflegri umræðu um sagnfræðileg álitamál, aðferðafræði og kenningar auk málefnalegrar gagnrýni á stöðu fagsins á Íslandi.
Í því skyni óskum við sérstaklega eftir því að framhaldsnemar í sagnfræði sem og nýútskrifaðir sagnfræðingar notfæri sér þetta tækifæri til að koma fræðilegum hugarefnum sínum og rannsóknum á framfæri. Fáist næg þátttaka munu hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélags Íslands á vormisseri 2014 að fullu vera helgaðir rannsóknum framhaldsnema og nýútskrifaðra sagnfræðinga og köllum við hérmeð eftir tillögum að framsögum. Skilafrestur tillagna er: 15. september 2013.
Áhugasamir geta sent póst á Vilhelm Vilhelmsson, varaformann félagsins, á netfangið viv13@hi.is.
Með von um góðar undirtektir,
Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands