Sjöundi og síðasti hádegisfyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 3. desember. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag.
Haraldur Hreinsson flytur fyrirlestur um upphaf kirkjuvaldsstefnunnar eða hinnar gregoríönsku siðbótar á Íslandi með hliðsjón af aðferðum menningarsögu.
Jafnan er litið svo á að Þorlákur Þórhallsson, biskup í Skálholti 1178-1193, hafi verið fyrsti fulltrúi kirkjuvaldsstefnunnar eða hinnar gregoríönsku siðbótar á Íslandi. Þó ekki sé vitað með fullri vissu í hverju nákvæmlega kröfur hans fólust, þá má ljóst vera að hann setti ýmis mál á dagskrá sem komu róti á þá kirkjuskipan sem fyrir var í landinu og stuðluðu að framgangi kirkjuvaldsstefnunnar. Kröfur Þorláks komu þó ekki fram í tómarúmi. Í trúarlegum textum á borð við stólræður og helgisögur sem varðveittir eru í handritum frá því um miðja 12. öld er að finna trúarlega orðræðu í samhljómi við þær kirkjupólitísku kröfur sem gerðar voru af forvígismönnum kirkjuvaldsstefnunnar. Fjallað verður um nokkur slík orðræðustef og athygli beint að samspili þeirra við kirkjupólitíska þróun tímabilsins. Því verður haldið fram að til að greina upphaf kirkjuvaldsstefnunnar sé ekki nóg að notast við hefðbundnar aðferðir persónu- og stofnanasögu heldur sé einnig æskilegt að grípa til aðferða menningarsögu. Af slíkum sjónarhóli má ljóst vera að jarðvegurinn fyrir framgang kirkjuvaldsstefnunnar var lagður strax á fyrri hluta 12. aldar með tilkomu trúarlegra texta á móðurmálinu uppfullum af eldfimum félagspólitískum hugmyndum.
Haraldur Hreinsson hefur lokið prófum í guðfræði frá Háskóla Íslands (2008 og 2009) og meistaraprófi frá Harvard háskóla (2011). Fyrr á þessu ári lauk hann doktorsprófi í sagnfræði frá háskólanum í Münster í Þýskalandi en þar starfaði hann við rannsóknarstofnunina Exzellenzcluster: Religion und Politik. Um þessar mundir vinnur hann að rannsókn styrktri af RANNÍs.