Sagnfræðingafélag Íslands bendir á að í bók eftir bandarískan rafmagnsverkfræðing sem væntanleg er á íslenskan bókmarkað er því hafnað að Helförin hafi átt sér stað. Bókin stenst engan veginn þær fræðilegu kröfur sem gerðar eru til sagnfræðirita eða fræðirita almennt. Fjölmargar rannsóknir og vitnisburðir sjónarvotta afsanna allt það sem haldið er fram í bókinni sem kom fyrst út vestra árið 1976.
Auk rangfærslna og sögulegrar afbökunar inniheldur bókin fasískan áróður og gyðingahatur. Bókin hefur verið bönnuð í einhverjum löndum og í Þýskalandi má ekki auglýsa hana. Vefbókaverslanir á borð við Amazon hafa tekið þá ákvörðun að bjóða bókina ekki til sölu.
Sagnfræðingafélag Íslands hvetur til gagnrýninnar og upplýstrar umræðu um efni bókarinnar og annarra af svipuðu tagi sem virðast fyrst og fremst hafa þann tilgang að kasta ryki í augu lesenda og afvegaleiða fræðilega umræðu.
Til að upplýst umræða geti átt sér stað þarf almenningur og fræðasamfélagið að hafa í höndum þau verkfæri sem þarf til að bregðast við augljósum sögufölsunum eða -afbökun. Mikilvægasta verkfærið er þekking og því skorar Sagnfræðingafélag Íslands á þar til bær stjórnvöld að taka nú þegar skref í þá átt að efla sögukennslu í grunn- og framhaldsskólum. Með því getur fólk forðast rit sem samin eru í vafasömum tilgangi og standast ekki fræðilegar kröfur.