Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands haldinn fimmtudagskvöldið 17. mars 2022 kaus þau Önnu Agnarsdóttur og Helga Þorláksson heiðursfélaga. Þau eru tíundi og ellefti heiðursfélaginn sem hljóta þá viðurkenningu í 50 ára sögu félagsins.
Anna og Helgi hafa markað djúp spor í sögu sagnfræðinnar á Íslandi sem fræðimenn, kennarar og með ötulu félagsstarfi. Þau störfuðu lengst af við sagnfræðikennslu í Háskóla Íslands þar sem þau sinntu jafnframt rannsóknum sem vörpuðu nýju ljósi á Íslandssöguna.
Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands lagði til við aðalfund að Anna og Helgi væru kosin heiðursfélagar og var sú tilnefning samþykkt með atkvæðum allra fundargesta nema hvað þau sátu hjá þegar kosið var um hvort um sig.
Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, flutti ræðu og mælti með kjöri nýju heiðursfélaganna. Hann kynntist Helga og Önnu sem nemandi við Háskóla Íslands þegar þau voru að stíga sín fyrstu spor í kennslu um 1980. Síðar átti hann eftir að vinna með þeim um árabil. Bæði voru afbragðskennarar og fræðimenn sagði Guðmundur, virk í stjórnun í stéttinni, mótuðu nokkrar kynslóðir nemenda við Háskóla Íslands og voru fulltrúar breyttra áhersla í íslenskum sagnfræðirannsóknum og sagnfræðikennslu.