Þriðjudaginn 30. janúar sl. hélt Sagnfræðingafélag Íslands viðburð í Neskirkju tileinkaðan árinu 1924 undir yfirskriftinni „fyrir hundrað árum“.
Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur tók fyrstur til máls. Hann sagði gallann við árið 1924 vera að það væri erfitt að benda á stóran atburð frá því árinu; þetta væri ártal sem sjaldan væri minnst í yfirlitsritum. Gunnar Þór fór þó yfir ýmsilegt sem gerðist fyrir hundrað árum. M.a. létust Franz Kafka, Vladímír Lenín og Elka Björnsdóttir dagbókarritari. Guðmundur Sigurjónsson glímukappi var dæmdur fyrir „samræði gegn náttúrulegu eðli“, Íhaldsflokkurinn íslenski var myndaður á árinu og þjóðarhagur var almennt góður. Að lokum útnefndi Gunnar Þór forsætisráðherrann Jón Magnússon mann ársins 1924.
Ása Ester Sigurðardóttir sagnfræðingur sagði frá kvennasögu á árinu 1924. Líkt og Gunnar Þór sagði Ása Ester ekki margt „stórt“ hafa gerst á árinu en þó væri ýmislegs að minnast. Fjallaði hún um húsmæðrastefnuna og benti m.a. á stofnun barnavinafélagsins Sumargjafar og á grein Halldóru Bjarnadóttur í Hlín um aðstöðu og framboð á kennslu húsmóðurfræða. Þá minntist Ása Ester á umræður um „nýju konuna“ og „Reykjavíkurstúlkuna“ auk ýmiss annars sem gerðist á árinu.
Margrét Elísabet Ólafsdóttir, prófessor við Listaháskóla Íslands, fjallaði um íslenska list á árinu 1924. M.a. flutti Landsbankinn í nýtt hús í mars árið 1924 og voru þá um leið afhjúpuð ný listaverk í húsinu eftir Jón Stefánsson og Jóhannes Sveinsson Kjarval. Ýmsir íslenskir myndlistarmenn fluttu til landsins upp úr árinu 1920 og þeirra á meðal var fyrrnefndur Jón Stefánsson sem flutti til Íslands síðar á árinu 1924. Ýmsar listasýningar fóru fram á landinu á árinu, þ. á m. fyrsta einkasýning Kristínar Jónsdóttur á Íslandi, árleg páskasýning Ásgríms Jónssonar og fyrsta sýning Tryggva Magnússonar hér á landi. Þeir Þórarinn B. Þorláksson og Muggur létust á árinu en Nína Sæmundsson sýndi verkið Móðurást á haustsýningu í París.
Að lokum var horft á stutta kvikmynd um fyrstu flugvélina sem kom til Íslands árið 1924.