Bókakvöld Sagnfræðingafélags Íslands og Sögufélags var haldið á mánudagskvöldið 4. mars síðastliðinn í Gunnarshúsi. Til umræðu voru þrjár nýlegar bækur, þ.e.
–Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu eftir Kristínu Loftsdóttur
–Séra Friðrik og drengirnir hans eftur Guðmund Magnússon
–Kynlegt stríð. Ástandið í nýju ljósi eftir Báru Baldursdóttur
Sumarliði Ísleifsson steig fyrstur á stokk og fjallaði um bók Kristínar Loftsdóttur, Andlit til sýnis. Hann taldi bókina vera áhrifamikið og glæsilegt verk með þarft innlegg í umræðu um kynþáttafordóma dagsins í dag. Hann sagði að bókin ætti að vera fermingargjöfin í ár, svo gott veganesti út í lífið væri hún. Í umræðum sem sköpuðust um bókina minntist Kristín á að bókinni væri ætlað að sýna fram á að heimurinn hefur aldrei verið snyrtilega afmarkaður, að sagan einkenndist af fordómum, ofbeldi og hatri og að þetta sé líka hluti af okkar sögu í dag.
Kristín Svava Tómasdóttir tók fyrir bókina Séra Friðrik og drengirnir hans eftir Guðmund Magnússon. Hún hrósaði nálgun Guðmundar að efninu, þar sem hann reynir að varpa ljósi á fleiri hliðar viðfangsefnisins en áður hefur verið gert. Bókina sagði hún vera mikilvægt framlag til fræðanna, þá kannski sér í lagi á þann máta sem hún ekki aðeins tekur fyrir sögu manns sem gengdi stórs hlutverks í nærsamfélagi sínu en einnig sem hluta af hinseginsögu og sögu kynverundar.
Síðast tók til máls Agnes Jónasdóttir sem fjallaði um bók Báru Baldursdóttur, Kynlegt stríð. Hún sagði ástandið greinilega ekki hafa verið einfalt fyrirbæri og að Báru hafi tekist mjög vel að greina frá þeim mismunandi þræðum þess og þar með gera lesendum kleift að skilja betur framvindu þessara atburða. Bókina sagði hún vera hnitmiðaða og aðgengilega þrátt fyrir að fjalla um stórt og mikið efni og vekja upp þarfar spurningar um aðgengi að skjalasöfnum, persónuvernd og sögulegt jafnrétti.
Létt var yfir fólki á fundinum, andrúmsloftið þægilegt og umræður líflegar og skemmtilegar.