Skip to main content

Fimmtudaginn 16. nóvember stóð Sagnfræðingafélag Íslands fyrir viðburði í samstarfi við Fróða, félag sagnfræðinema, undir yfirskriftinni „Hvað gera svo sagnfræðingar?“ þar sem flutt voru erindi um möguleika sagnfræðinga og sagnfræðinema utan veggja háskólans.

Friðbjörg Ingimarsdóttir, framkvæmdarstýra Hagþenkis, útskýrði starfsemi félagsins og hvatti unga sem aldna sagnfræðinga til rannsókna, þrátt fyrir að líf hins sjálfstætt starfandi fræðimanns gæti oft á tíðum verið hark: „Það er ótrúlega dýrmætt að vera upplýst samfélag“.

Magnús Gunnlaugur Þórarinsson, verkefnisstjóri á alþjóðasviði HÍ, kynnti möguleika sagnfræðinema til skiptináms, starfsþjálfunar og styttri námsdvalar erlendis og útskýrði ferlið. Hann lagði áherslu á alþjóðlega reynslu, tengslanet og aukið námsframboð sem slíkar ferðir hefðu í för með sér og augljósa kosti þess.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður byrjaði erindið sitt á huggunarorðunum: „Þetta verður allt í lagi“. Hún lýsti fyrir áhorfendum upplifun sinni af sagnfræðinámi og áhrifum þess á starf hennar sem fréttamaður og rithöfundur. Sagnfræðin hefði kennt henni að hugsa og skipuleggja þær hugsanir.

Bogi Ágústsson fréttamaður sagði það vera mestu gæfu lífsins að vera í vinnu sem maður hefur gaman af og hlakkar til að mæta í á hverjum degi. Hann lagði áherslu á að sagnfræðin kenni iðkendum sínum að skilja heiminn, að koma efni frá sér, akademísk vinnubrögð og heimildarýni. Hann endaði erindið sitt með ráðum til viðstaddra, að nálgast viðfangsefni sín með opnum huga, vera víðsýn og opin og sjá og kynna sér sjónarmið annarra.

Arnór Gunnar Gunnarsson og Valur Gunnarsson fóru með fundarstjórn.