Hvernig er staðið að sögukennslu í grunnskólum? Hvernig hefur staða hennar breyst á umliðnum árum?
Mánudaginn 23. október stóð sagnfræðingafélagið fyrir fyrsta málþingi vetrarins þar sem meðal annars var leitast við að fá svör við ofangreindum spurningum.
Íris Ellenberger gerði grein fyrir hvernig kennaraefni eru búin undir sögukennslu. Kom fram í máli hennar að nokkuð væri um að sagnfræðimenntað fólk leitaði í kennslufræðina. Hún lét þess getið að saga væri sterk innan samfélagsfræðinnar en nauðsynlegt væri að vera á varðbergi þar sem sífellt væri leitast við að bæta öðru námsefni við samfélagsfræðina. Var á henni að skilja að saga fengi minna rými í dag en áður var af þeim sökum.
Ragna Rögnvaldsdóttir hélt því fram að saga ætti brýnt erindi við nemendur á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta. Þá vildu nemendur gjarnan fá betri skilning á fréttum líðandi stundar, t.d. varðandi stríðsátök, og þá sé gott að grípa til sögunnar. Það sé þó oft vandmeðfarið þar sem nemendahópurinn sé orðinn fjölþjóðlegur og bakgrunnur nemenda því fjölbreytilegur. Sumir hafa enga tengingu við þjóðarsöguna meðan aðrir tengjast stríðsátökum beint.
Sigrún Sóley Jökulsdóttir fór yfir þær breytingar sem hafa orðið á aðalnámskrá grunnskóla frá 1960 en hún er helsti leiðarvísir kennara. Kom fram í máli hennar að saga hafi verið sjálfstæð eining fram til 1976 þegar hún varð hluti af samfélagsfræði. Eftir það hefur saga frekar verið fléttuð saman við önnur fög en áður var. Þá fór Sigrún yfir nokkrar námsbækur sem standa sögukennurum til boða.
Nokkrar umræður urðu eftir hvert erindi þar sem meðal annars var rætt um hvernig staðið væri að námskrárgerðinni, hvort nemendur fengju næga sögulega þekkingu í náminu og hvort ekki þyrfti að auka samstarf á milli skólastiga. Var á fundarmönnum að heyra að full ástæða væri að auka söguvitund menntaæskunnar og það þyrfti að gerast með samstilltu átaki þeirra sem að menntamálum koma.
Frummælendur voru:
• Íris Ellenberger, sagnfræðingur og dósent í samfélagsgreinum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
• Ragna Rögnvaldsdóttir, grunnskólakennari
• Sigrún Sóley Jökulsdóttir, grunnskólakennari og ritstjóri í samfélagsgreinum hjá Menntamálastofnun
Ása Ester Sigurðardóttir fór með fundarstjórn.