Skip to main content

Þriðjudagskvöldið 21. maí sl. hélt Sagnfræðingafélagið fund í Neskirkju undir yfirskriftinni „forseti: til hvers?“ Til máls tóku þau Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við HÍ, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði og rektor HR, og Markús Þ. Þórhallsson, sagnfræðingur og fréttamaður.

Guðmundur fór yfir valdsvið forseta samkvæmt stjórnarskrá auk sögu og tilkomu stjórnarskrárinnar frá 19. öld fram að lýðveldisstofnun. Þá bar hann saman íslenskt stjórnkerfi við fyrirkomulag þjóðhöfðingja í öðrum ríkjum og rakti breytingar á eðli forsetaembættisins í gegnum tíðina.

Ragnhildur sagði m.a. að stjórnarskráin árið 1944 hefði að ýmsu leyti ekki verið lýsandi fyrir stjórnkerfið á þeim tíma, hún hefði verið safn misgamalla ákvæða og hálfgerður bútasaumur. Ákveðið hefði verið árið 1942 að breyta aðeins því sem nauðsynlegt var til að stofna lýðveldi og „kasta boltanum til framtíðar“. Þá ræddi Ragnhildur um hvort unnt væri að útvista hlutverkum forseta annað og að sama skapi hvort hægt væri að breyta í hina áttina og auka völd forseta.

Markús spurði að því hvers konar fólk „mætti“ bjóða sig fram til forseta. Svo virðist sem almenningur vilji ekki hvaða manneskju sem er sem sem forsetaframbjóðanda og sjaldgæft væri að „óbreytt alþýðufólk“ kæmist á blað hjá fólki. Hann nefndi dæmi um Pétur Hoffmann Salómonsson, sem reyndi mótframboð gegn Ásgeiri Ásgeirssyni árið 1956 en hætti að lokum við. Þá þótti Albert Guðmundsson „móðga“ samfélagið með því að tilkynna framboð sitt áður en Kristján Eldjárn lýsti því endanlega yfir að hann byði sig ekki aftur fram árið 1980. Að auki þótti Sigrún Þorsteinsdóttir sóa peningi ríkissjóðs með því að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta, Vigdísi Finnbogadóttur, árið 1988 og efna þannig til forsetakosninga sem sumum þóttu óþarfar. Einnig nefndi Markús dæmi um fleiri frambjóðendur sem almenningur eða fjölmiðlar tóku ekki alvarlega.

Frambjóðendum til forseta Íslands í komandi kosningum var boðið á fundinn og mættu fjórir af tólf frambjóðendum. Áhugaverðar umræður fóru fram að erindum loknum og þakkar stjórn Sagnfræðingafélagsins frummælendum og öðrum gestum kærlega fyrir þátttökuna.