Skip to main content

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands fer fram laugardaginn 21. mars n.k. í húsi Sögufélags
við Fischersund. Fundurinn hefst kl. 16.
Dagskrá
1) Ársskýrsla kynnt og lögð fram til samþykktar.
2) Endurskoðaðir reikningar kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3) Lagabreytingar (engar tillögur að lagabreytingum hafa borist stjórn félagsins).
4) Kjör stjórnar. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga til eins árs.
5) Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
6) Önnur mál.
Að loknum aðalfundarstörfum verður gert stutt hlé og kl. 17 mun dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir flytja erindi sem nefnist Íslenskur kommúnismi? Í útdrætti að erindinu segir:
Ólíkt kommúnistahreyfingunni í nágrannalöndunum hafði íslenski angi hennar ekki á róttækum grunni að byggja. Frameftir þriðja áratugnum störfuðu kommúnistar innan Alþýðuflokksins og átti það þátt í að styrkja stöðu þeirra á Íslandi. Engu að síður þurftu kommúnistar að skapa sér sérstöðu og greina sig frá sósíaldemókrötum í Alþýðuflokknum. Tengslin við alþjóðlega kommúnistahreyfingu og loforð um byltingu hliðstæða þeirri í Rússlandi veitti þeim slíka sérstöðu. En það var ekki sama hvernig þeir kynntu kommúníska hugmyndafræði í íslensku samhengi. Ákall um heimsbyltingu öreiganna og kvaðning í alþjóðlegan baráttuher þurfti að orða þannig að það fengi merkingu og hljómgrunn á meðal Íslendinga. Í fyrirlestrinum verður fjallað um tilraunir til að þýða kommúnismann yfir á íslensku.
Boðið verður upp á léttar veitingar.
Að fundi loknum er stefnt að því fundargestir, og aðrir sem áhuga hafa, snæði saman kvöldverð. Staður verður nánar auglýstur síðar.