Næstkomandi þriðjudag flytur Sigurður Gylfi Magnússon fyrirlestur sinn „Að lifa í minningunni – stigmögnun sjálfstjáningar“ í hádegisfyrirlestraröðinni Hvað eru minningar?
Árum saman voru félagssagnfræðingar tregir til að nýta sér við rannsóknir persónulegar minningar fólks nema í mjög afmörkuðum tilgangi. Á síðari árum hefur orðið grundvallarbreytinga á hugmyndum fræðimanna um stöðu slíkra minninga í vísindarannsóknum. Í fyrirlestrinum verða reifuð helstu rök og gerð grein fyrir þeim hugmyndum sem ég hef sjálfur um efnið eftir tveggja áratuga reynslu af notkun þeirra. Ég mun sýna fram á að minningar fólks geti verið varhugaverðar í vísindarannsóknum en engu að síður óhjákvæmilegt viðfangsefni allra sem kljást við fyrri tíð.
Fyrirlesturinn er öllum opinn og ókeypis. Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 í sal Þjóðminjasafns Íslands.