Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands var haldinn 20. mars 2024 kl. 20 í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar í bókasafni Dagsbrúnar. Að aðalfundarstörfum loknum flutti Stefán Pálsson sagnfræðingur erindið „Af öskuhaugum sögunnar“.
Ása Ester Sigurðardóttir varaformaður hætti í stjórn á aðalfundinum eftir tveggja ára setu. Henni var þakkað fyrir góð störf í þágu félagsins. Agnes Jónasdóttir var kjörin ný í stjórn og aðrir stjórnarmeðlimir héldu áfram. Heðfbundin aðalfundarstörf fóru fram og fylgir hér skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2023–2024.
Stjórn Sagnfræðingafélagsins var kjörin á aðalfundi 16. mars 2023. Markús Þórhallsson formaður, Brynjólfur Þór Guðmundsson og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir hættu stjórnarstörfum en í þeirra stað komu Anna Agnarsdóttir, Leifur Reynisson og Valur Gunnarsson í stjórnina og tók Arnór Gunnar Gunnarsson við sem formaður. Á fyrsta stjórnarfundi var ákveðið að Ása Ester Sigurðardóttir yrði nýr varaformaður, Ragnhildur Anna Kjartansdóttir héldi áfram sem gjaldkeri, Leifur Reynisson vefstjóri, Kristbjörn Helgi Björnsson ritari og Valur Gunnarsson og Anna Agnarsdóttir meðstjórnendur.
Á aðalfundinum voru Sólveig Ólafsdóttir og Sumarliði Ísleifsson jafnframt endurkjörin endurskoðendur reikninga og Markús Þórhallsson og Ragnhildur Anna Kjartansdóttir voru kjörin fulltrúar félagsins í landsnefnd sagnfræðinga. Ákveðið var að hækka árgjaldið úr 2.800 kr. í 3.500 kr. en það hafði ekki verið hækkað í fjölda ára fram að því.
Fyrsti viðburður starfsársins var fundur um stöðu skjalasafna 27. apríl í Þjóðarbókhlöðunni. Skömmu áður höfðu verið teknar ákvarðanir um að leggja niður Borgarskjalasafn og Héraðsskjalasafnið í Kópavogi og sendi stjórn félagsins frá sér yfirlýsingar þar sem hún lýsti andstöðu við þessi áform. Mæting á fundinn var með besta móti en til máls tóku Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður í Kópavogi, Njörður Sigurðsson aðstoðarþjóðskjalavörður og Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands.
Hinn 16. september var farið í haustferð með Helga Þorlákssyni. Haldið var með rútu á Þingvelli og í Skálholt og snæddur hádegisverður. Þetta var fyrsta skiptið í nokkur ár sem Sagnfræðingafélagið skipulagið ferð sem þessa.
Mánudaginn 23. október var haldinn fundur í Neskirkju um stöðu sögukennslu í grunnskólum. Frummælendur voru Íris Ellenberger, sagnfræðingur og dósent í samfélagsgreinum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Ragna Rögnvaldsdóttir grunnskólakennari og Sigrún Sóley Jökulsdóttir, grunnskólakennari og ritstjóri í samfélagsgreinum hjá Menntamálastofnun.
Þann 16. nóvember hélt Sagnfræðingafélag viðburð í samstarfi við Fróða, félag sagnfræðinema, undir yfirskriftinni „Hvað gera svo sagnfræðingar?“ Til máls tóku Friðbjörg Ingimarsdóttir, framkvæmdastýra Hagþenkis, Magnús Gunnlaugur Þórarinsson, verkefnisstjóri á alþjóðasviði HÍ, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður, og Bogi Ágústsson fréttamaður. Viburðurinn var haldinn í Veröld. Var þetta annað árið í röð sem félagið hélt slíkan viðburð í samvinnu við Fróða.
30. janúar var haldinn viðburður í Neskirkju um árið 1924. Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur, Ása Ester Sigurðardóttir sagnfræðingur og Margrét Elísabet Ólafsdóttir, prófessor í fræðum myndlistar, voru frummælendur.
Síðasti viðburður starfsársins var bókakvöld í samvinnu við Sögufélag í Gunnarshúsi 4. mars. Sumarliði Ísleifsson, Kristín Svava Tómasdóttir og Agnes Jónasdóttir fjölluðu um bækur eftir Kristínu Loftsdóttur, Guðmund Magnússon og Báru Baldursdóttur.