Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands 2019 verður haldinn miðvikudagskvöldið 27. mars í fyrirlestrasal Þjóðskjalasafns Íslands, Laugavegi 162 (3. hæð, gengið inn úr portinu). Aðalfundarstörf hefjast kl. 20:00, sjá nánari dagskrá að neðan. Að þeim loknum, kl. 20:45, munu tveir sagnfræðingar kynna nýjar rannsóknir í faginu.
Björn Reynir Halldórsson kynnir doktorsrannsókn sína, Kvennalistinn. Feminísk ögrun við íslensk stjórnmál, en fyrir hana hlaut hann nýlega styrk úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs. Rannsóknin leggur sérstaka áherslu á samspil jafnréttisstefnu Kvennalistans og femínisma við hugmyndir hans um alþjóða-, friðar- og utanríkismál, lýðræði, efnahagsmál og umhverfismál.
Þá mun Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, flytja erindið Akademía verður til! Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking. Um er að ræða öndvegisverkefni sem samanstendur af framlagi fræðimanna á sviði sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði og safnafræða og hlaut styrk frá Rannsóknarsjóði Íslands (RANNÍS) á liðnu ári.
Dagskrá aðalfundarins er sem hér segir:
1. Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
2. Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
3. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
4. Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga.
5. Önnur mál.
Eftir fundinn verður boðið upp á léttar veitingar.