Skip to main content

Þriðjudaginn 26. mars flytur Vilhelm Vilhelmsson hádegisfyrirlesturinn „Með kærleiksmeiningar vinmælum“: Sáttanefndir og lausn deilumála á 19. öld. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur hádegisfyrirlesturinn í samvinnu við Þjóðminjasafnið en hann er hluti af fyrirlestraröð félagsins, sem þetta misserið hefur yfirskriftina „Saga réttarfars og refsinga“.
Árið 1798 voru sáttanefndir settar á fót á Íslandi með konunglegri tilskipun. Þær störfuðu í svo til óbreyttri mynd fram á fjórða áratug 20. aldar, þegar lög um störf þeirra tóku umtalsverðum breytingum. Í kjölfarið dró töluvert úr umsvifum þeirra en þær voru lagðar niður með lögum árið 1981.
Hlutverk sáttanefnda var að miðla málum og leita sátta í margvíslegum misklíðarefnum manna á milli og létta þannig undir störfum héraðsdómara og stuðla að friði í nærsamfélaginu. Um leið var þeim ætlað að auðvelda fátækum almenningi að leita réttar síns án þess að leggja í kostnaðarsaman og tímafrekan málarekstur fyrir dómi.
Þessari nýjung í réttarfari landsmanna var almennt vel tekið og skrifaði Grímur Jónsson amtmaður Norður- og austuramts árið 1831 að nefndirnar hafi verið einhver mesta réttarbót á Íslandi í seinni tíð. Þrátt fyrir það hafa sagnfræðingar þeim litla athygli veitt og fáir hafa nýtt sér bækur sáttanefnda sem heimildir um daglegt líf á 19. öld.
Í erindi Vilhelms verður fjallað um tildrög þess að sáttanefndir voru settar á fót og hvaða hlutverki þær þjónuðu í nærsamfélaginu. Einnig verður fjallað um sáttanefndarbækur sem heimildir fyrir sagnfræðinga og valin dæmi tekin um notkunarmöguleika þeirra.
Vilhelm Vilhelmsson er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra og með doktorspróf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sérsvið hans er félagssaga 18. og 19. aldar. Hann hefur gefið út fjölda greina um vesturferðir, heimildavanda vitnisburða fyrir dómi, vistarband og margt fleira. Bók hans, Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld (2017), var tilefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og Viðurkenningar Hagþenkis. Hann bjó einnig til útgáfu bókina Sakir útkljáðar: Sáttabók Miðfjarðarumdæmis í Húnavatnssýslu 1799-1865 (2017) og ritaði inngang.