Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands var haldinn í húsi Sögufélagsins laugardaginn 8. mars 2008 kl. 16. Fráfarandi formaður félagsins Hrefna Karlsdóttir bauð fundargesti velkomna og gerði það að tillögu sinnu að Guðmundur Jónsson yrði skipaður fundarstjóri. Aðrar tillögur um fundarstjóra komu ekki fram og tók Guðmundur við fundarstjórn. Hann sagði nokkur orð og minnti fundarmenn á formlegar fundarreglur sem ber að fara eftir. Gengið var til dagsskrár sem var hefðbundin aðalfundarstörf, skv. lögum félagsins.
Síðasta starfsár. Ársskýrsla formanns var nú sem áður ítarleg. Hrefna formaður las upp ársskýrslu sína fyrir starfsárið 2007-2008, í skýrslunni gat hún helstu viðburða í félaginu á starfsárinu og þeirra ályktana og samþykkta sem stjórn félagsins stóð að. Stjórnarfundur voru allt 7 á starfsárinu. Meðal þess formaður drap á í ársskýrslu sinni var landsbyggðaráðstefnan, hádegisfyrirlestrar, kvöldfundur með Sögufélaginu, fundur um ævisagnaritun, bókafundur og Norræna sagnfræðingaþingið.
Umræður um félagsstarf. Fundarstjóri hvatti gesti til að hugsa um hvað mætti betur fara í starfi félagsins og koma hugmyndum á framfæri við nýja stjórn. Meðal þess sem hann óskaði eftir var að sagnfræðingar veltu fyrir sér er möguleiki á fundum og fundartímum þar sem fagleg málefni stéttarinnar yrðu tekin fyrir alveg óháð því sem fram fer á hádegisfundum í Þjóðminjasafni. Nokkur umræða varð um erfiðleika þess að finna fundartíma sem flestum hentar og rætt var um almenna fundarsókn sagnfræðinga. Guðni Th. Jóhannesson gerði það að tillögu sinni að stefnt yrði að einum kvöldfundi á önn þar sem málefni sagnfræðinga og sagnfræðinnar yrðu aðalmál.
Reikningar. Gjaldkeri félagins, Magnús Lyngdal Magnússon, las upp efnahagsreikning og fundarmenn fengu yfirlit ársreiknings í hendur. Hann tók það fram að uppgjörsárið væri almanaksárið en starfsár Sagnfræðingafélagsins er mars – mars. Staða félagsins er góð þrátt fyrir að engir styrkir hafi komið inn á árinu 2007. Nokkrar fyrirspurnir komu fram sem gjaldkeri svaraði. M.a var spurt um hvenær rukkanir vegna árgjalds færu út og með hvaða hætti það yrði innheimt, spurt var um póstfang félagsins og hvar frumrit reikninga væri að finna. Annar tveggja skoðunarmanna reikninga Gísli Gunnarsson skoðaði reikninga fyrir aðalfund og sagði engar athugasemdir við þá af sinni hálfu en hann setti út á framsetningu þeirra. Reikningarnir voru síðan samþykktir athugasemdalaust. Árgjald var samþykkt 2800 kr.
Engar lagabreytingar lágu fyrir fundinum.
Kjör stjórnar og nefndarmenn. Skv. lögum félagsins er formaður kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar. Úr stjórn gengu þetta ár: Hrefna Karlsdóttir formaður, Bragi Ólafsson og Magnús Lyngdal Magnússon. Óskað var eftir tilnefningum um nýtt fólk í stjórn og bar Hrefna upp tillögu um Írisi Ellenberger til formanns. Ekki komu fram aðrar tillögur um formann og var Íris kjörin formaður.
Guðmundur fundarstjóri þakkaði Hrefnu vel unnin störf og tóku fundarmenn undir þakkirnar með langvinnu lófaklappi. Óskað var eftir tillögum um aðra menn í stjórn og komu fram nöfn Vals Freys Steinarssonar og Njarðar Sigurðssonar. Guðrni Th. minnti á að verið væri að kjósa mann í stjórn fyrir Braga til tveggja ára og fyrir Magnús L Magnússon til eins árs. Í stjórninni verða áfram: Brynhildur Einarsdóttir, Guðbrandur Benediktsson, Unnur María Bergsveinsdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir. Annar skoðunarmaður reikninga, Gísli Gunnarsson gaf kost á sér áfram en í stað Arnþórs Gunnarssonar kemur Sesselja Magnúsdóttir. Landsnefnd sagnfræðinga verður óbreytt næsta starfsár en þar sitja Halldór Bjarnason og Sigrún Sigurðardóttir.
Guðni Th. Jóhannesson ítrekaði þakkir til þeirra sem eru að hætta í stjórn og óskaði nýju fólki velfarnaðar í starfi. Hrefnu voru fluttar sérstakar þakkir og stjórnarmenn þökkuðu ánægjulegt samstarf. Guðmundi Jónssyni var þökkuð röggsamleg fundarstjórn og formlegum fundi slitið. Eftir fundarslit og kaffihlé flutti nýkjörinn formaður Íris Ellenberger erindið „Íslandsmyndir 1916-1966. Myndefni, ímyndir og raunveruleiki“.