Skip to main content

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands lýsir yfir undrun á vali forsætisnefndar Alþingis á höfundi til að rita sögu þingræðis á Íslandi. Sú ákvörðun nefndarinnar að ráða til verksins Þorstein Pálsson, sendiherra og fyrrverandi alþingismann og ráðherra, frekar en að leita til einhvers úr hópi fjölmargra vel menntaðra og reyndra sagnfræðinga í landinu vekur upp alvarlegar spurningar um viðhorf ráðamanna til háskólanáms á þessu sviði.
Ráðning fyrrverandi forsætisráðherra og formanns stjórnmálaflokks vekur einnig upp þá spurningu hvort forsætisnefnd Alþingis vilji ekki stefna að því að gæta ítrustu hlutlægni við verk þar sem væntanlega verður fjallað um pólitísk álitamál eins og þingrof, utanþingsstjórn og synjunarvald forseta.
Ákvörðunin vekur auk þess undrun vegna þess að undanfarin ár hefur Alþingi staðið að útgáfu vandaðra rita sem viðurkenndir fræðimenn á sviði sagnfræðirannsókna unnu og hlutu lof fyrir. Má þar nefna ritverkin Kristnisaga Íslands og Endurreisn Alþingis og þjóðfundurinn. Þrátt fyrir allt óskar Sagnfræðingafélag Íslands nýráðnum höfundi verksins velgengni í vandasömu starfi.
Reykjavík, 2. október 2005. Fyrir hönd stjórnar Sagnfræðingafélags Íslands,
Guðni Th. Jóhannesson, formaður félagsins