Skip to main content

Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands samþykkti og sendi frá sér eftirfarandi ályktun 3. desember 2006:
Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands lýsir þungum áhyggjum af því ástandi sem skapast með uppsögnum starfsmanna Íslendingabókar. Gagnagrunnur Íslendingabókar hefur nýst fræðimönnum á undanförnum árum við rannsóknir og sparað þeim ómælda vinnu. Þá hefur almenningur sótt mikið í grunninn. Meðal þeirra sem láta af störfum á næstu vikum eru tveir sagnfræðingar sem hafa unnið við gerð Íslendingabókar árum saman og hafa við þá vinnu nýtt þekkingu sína og reynslu af gagnrýninni heimildarýni. Trúverðugleiki Íslendingabókar sem heimildar byggir m.a. á traustum faglegum vinnubrögðum allra þeirra starfsmanna sem við hana vinna. Stjórn Sagnfræðingafélags Íslands óttast að verði slakað á kröfum um fræðileg vinnubrögð með uppsögnum sérfræðinga verði ekki lengur unnt að reiða sig á gagnagrunn Íslendingabókar sem trúverðugt safn heimilda.
Fyrir hönd stjórnar Sagnfræðingafélags Íslands
Guðni Th. Jóhannesson