Skip to main content

Þriðjudaginn 3. febrúar flytur Árni Daníel Júlíusson hádegisfyrirlesturinn Andóf í akademíunni. Athugið að dagskrá vormisseris hefur verið breytt. Lára Magnúsardóttir sem átti að flytja fyrirlestur 3. febrúar flytur erindi sitt 17. febrúar.
Í lýsingu Árna á erindinu segir:
Meðal þess sem rætt hefur verið eftir hrun efnahagslífsins er ábyrgð akademíunnar. Spurt er af hverju menntamenn hafi ekki séð fyrir hvað væri að gerast og varað við því, þannig að tekið væri eftir. Í erindinu verða nokkrar mögulegar ástæður þess ræddar. Í fyrsta lagi var hugmyndafræði frjálshyggjunnar andsnúin því að rætt væri um samfélag og stórar heildir. Öll áhersla var á einstaklinginn og frelsi hans. Þetta hafði veruleg áhrif í akademíunni, því þrengt var að hug- og félagsvísindum og lítill áhugi af hálfu stjórnvalda á því að afla upplýsinga til að fá yfirsýn. Þetta sést best á því að Þjóðhagsstofnun var beinlínis lögð niður.
Í annan stað er ekki alveg rétt að allt háskólasamfélagið hafi lagst flatt frammi fyrir valdi nýfrjálshyggjunnar. Þar var í gangi mikil, gagnrýnin umræða, sem fór fram af verulegri alvöru, og snérist um að gera upp við stórsögur marxisma og þjóðernishyggju. Þessi umræða, í anda póstmódernisma, naut stuðnings margra yngri menntamanna og femínista sem fundu þarna tæki til eflingar málstað sínum. En þessi straumur endurspeglaði frjálshyggjuna að því leyti að engin áhersla var lögð á að ræða samfélagið, efnahagsmál og annað slíkt. Áherslan var á hið huglæga, upplifunina og sjálfið.
Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands Hvað er andóf?
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.