Skip to main content

Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur flytur erindið „Ég var ekki falur neinu valdi.“ Um Gunnar Gunnarsson og dóm sögunnar þriðjudaginn 16. febrúar kl. 12.05 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Í erindinu fjallar Jón Yngvi meðal annars um samskipti Gunnars við Þriðja ríkið og afstöðu Gunnars sjálfs á efri árum til hlutverks síns í sögunni. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins sem ber yfirskriftina Hvað er dómur sögunnar?
Dómur sögunnar er ekki einkamál sagnfræðinga eða annarra fræðimanna sem fást við sögulegar rannsóknir. Flestir þeir sem taka virkan þátt í mannlífi og menningu eru sér meðvitaðir um að verk þeirra verða dæmd, bæði af samtímamönnum og þeim sem á eftir koma. Þetta á ekki síst við um rithöfunda, sérhver rithöfundur býr sér til goðsögn um sjálfan sig og sú goðsögn er öðrum þræði málsvörn fyrir dómstól sögunnar.
Í erindinu verður einkum fjallað um glímu Gunnars við eigin arfleifð á seinni hluta ævinnar. Gunnar varð þess óvenju snemma áskynja að líf hans og verk voru efni í sögu. Fyrstu bækurnar um hann komu út þegar hann var á fertugsaldri og sjálfur tók hann snemma að móta sögu sína á virkan hátt, í skáldskap, greinum, viðtölum og einkabréfum.
Athyglinni verður einkum beint að tveimur hliðum á lífi Gunnars sem hafa öðrum fremur orðið tilefni til sögulegra dóma: annars vegar samskiptum hans við Þriðja ríkið á fjórða áratugnum, hins vegar stöðu hans í íslenskri bókmenntasögu og sambandi hans við Halldór Laxness.
Gunnar gerði aldrei upp fortíð sína með afgerandi hætti, meðal annars vegna þess að honum þótti hann ekki þurfa þess.Hann trúði því að dómur sögunnar yrði sér í hag. Með rannsókn á skrifum Gunnars, einkum greinum og bréfum, verður reynt að varpa ljósi á afstöðu hans sjálfs til sögulegrar arfleifðar sinnar og á þá dóma sem seinni tíma menn hafa fellt um Gunnar Gunnarsson og verk hans.
Nánari upplýsingar veitir Jón Yngvi í síma 820 0871.
Aðgangur er sem fyrr öllum opinnn og ókeypis.