Skip to main content

Þriðjudaginn 11. september hefjast hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélags Íslands að nýju. Það er Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent við Háskólann á Bifröst og forstöðumaður Evrópufræðaseturs sem ríður á vaðið í fyrsta hádegisfyrirlestri vetrarins. Eiríkur spyr, hvar á Ísland heima?
Tvö gagnstæð öfl hafa undanfarið togtast á um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Eins og á við um önnur opin evrópsk lýðræðisríki hefur Ísland fundið fyrir auknum efnahagslegum og pólitískum þrýstingi til að taka þátt í evrópsku samstarfi. Á hinn bóginn hefur sú mikla áhersla sem Íslendingar hafa allt frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar lagt á formlegt fullveldi þjóðarinnar orðið til þess að Íslendingar hafa reynst tregir í taumi í evrópsku samstgarfi. Þrátt fyrir áhersluna á formlegt fullveldi þjóðarinnar hafa íslensk stjórnvöld eigi að síður fundið leið til að taka virkan þátt í fjölþjóðlegu samstarfi þar sem ákvarðanataka er framseld til alþjóðlegra stofnanna. Almennt talað og með nokkurri einföldun má segja að ríkisvaldið hafi tvö meginhlutverk, annars vegar að verja landið og öryggi borgaranna og hins vegar að setja þegnum ríkisins lög. Íslensk stjórnvöld leystu landvarnarþáttinn með því að fá verktaka í Washington til að sjá um varnir landsins með varnarsamningnum frá árinu 1951. Hvað hinn þáttinn varðar má með svipuðum rökum halda því fram að ríkisstjórn Íslands hafi með EES-samningnum frá árinu 1994 fengið verktaka í Brussel til að sjá um lagasetninguna á nokkrum mikilvægum efnissviðum. Í fyrirlestrinum er raunveruleg staða Íslands í samfélagi þjóðanna til skoðunar og spurt hvernig sú staða fellur að sjálfsmynd þjóðarinnar þar sem ofuráhersla er lögð á hið formlega fullveldi?
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.